Tévez tilbúinn til að leika í Englandi

Carlos Tévez með konu sinni og dætrum.
Carlos Tévez með konu sinni og dætrum. Reuters

Carlos Tévez er tilbúinn til að færa sig um set í Englandi og spila áfram í úrvalsdeildinni, þrátt fyrir að hann sé að óbreyttu á förum frá Manchester City.

Ráðgjafi hans, Kia Joorabchian, skýrði frá þessu í viðtali við Daily Mirror í dag. Tévez hefur löngum verið haldinn mikilli heimþrá en það hefur breyst.

„Nú er fjölskyldan hans flutt til Englands svo hann er ánægður og búinn að koma sér vel fyrir. Hann átti erfitt með að vera fjarri þeim en nú eru þau hjá honum svo allt er komið í besta lag. Hann yrði mjög ánægður með að færa sig yfir til annars liðs í úrvalsdeildinni," sagði Joorabchian.

„Þetta er ekki auðvelt hjá honum eins og er en í janúar mun Manchester City vilja losna við hann, selja hann eða lána, og við bíðum og sjáum hvað gerist," sagði ráðgjafinn ennfremur.

Tévez var sakaður um að hafa neitað að fara inná sem varamaður í leik með Manchester City gegn Bayern München í lok september og hefur ekki spilað með liðinu síðan. Hann hefur ávallt neitað að það sé rétt, og rannsókn innan félagsins studdi ekki þau orð knattspyrnustjórans, Robertos Mancinis, að Argentínumaðurinn hefði ekki viljað fara inná.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert