Yaya Toure miðjumaðurinn snjalli hjá Manchester City segir að breiddin sé það mikil hjá liðinu að það gæti hæglega teflt fram öðru liði sem myndi örugglega blanda sér í baráttu um sæti í Meistaradeildinni.
City er taplaust í deildinni og hefur fimm stiga forskot á Englandsmeistara Manchester United þegar 11 umferðum er lokið af 38.
,,Við erum með tvö lið. Fólk segir að liðið sem vann Wolves í deildabikarnum, 5:2, hafi verið varalið en fyrir mér er það ekki því allir í leikmannahópi okkar eru nógu góðir til að spila.
Liðið sem spilaði svo á móti Wolves á heimavelli í deildinni vann 3:1 og það var erfiður leikur. Við erum með frábæran hóp og það eru allir að bæta mig. Það er alveg meiriháttar,“ segir Toure, sem hefur spilað afar vel með City-liðinu á leiktíðinni og skoraði sigurmarkið gegn QPR um síðustu helgi.