Enska knattspyrnufélagið Newcastle leikur ekki lengur á St. James' Park, einu þekktasta nafninu á velli í Englandi, því honum hefur verið gefið nýtt nafn og heitir nú Sports Direct Arena.
Það er nafnið á fyrirtæki eigandans, Mike Ashleys, og völlurinn mun bera það nafn tímabundið, en með því hyggst félagið vekja athygli stórra fyrirtækja á því að heiti vallarins sé til sölu.
„Þetta er ákjósanleg leið til að tryggja félaginu verulega auknar tekjur. Markmið okkar er að sjá til þess að liðið sé sigursælt, fyrir stuðningsmenn okkar og alla félagsmenn. Til að það gangi eftir verður félagið að vera sjálfbært í tekjum. Ef félagið á að stækka umtalsvert og eiga möguleika á meiri árangri verða tekjurnar að aukast verulega," segir Derek Llambias, markaðsstjóri Newcastle, á vef félagsins.
St. James' Park er elsti knattspyrnuleikvangur í norðausturhluta Englands en hann var byggður fyrst árið 1880. Newcastle West End FC lék á vellinum fyrstu árin. Newcastle East End flutti þangað 1892 en það var fékk síðan nafnið Newcastle United. Völlurinn var síðan endurbyggður frá grunni og tekinn í notkun á ný árið 1905. Hann hefur síðan verið endurnýjaður smám saman, síðast á árunum 1998 til 2000, og rúmar nú ríflega 52 þúsund áhorfendur í sæti.