Enska knattspyrnusambandið hefur kært Luis Suárez framherja Liverpool fyrir kynþáttafordóma í garð Patrice Evra leikmanns Manchester United en Evra kærði Úrúgvæann eftir leik Liverpool og United í síðasta mánuði.
Enska knattspyrnusambandið greindi frá þessu nú undir kvöld en síðustu vikurnar hefur verið unnið að rannsókn málsins.
Í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu segir meðal annars; ,,Enska knattspyrnusambandið hefur kært Luis Suárez fyrir atvik sem átti sér stað í viðureign Liverpool og Manchester United á Anfield þann 15. október. Grunur leikur á að Suárez hafi notað niðrandi orð í garð Patrice Evra sem brjóta gegn reglum enska knattspyrnusambandsins.“
Suárez hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu í málinu og á vef Liverpool í kvöld kemur fram að félagið muni veita honum fullan stuðning í málinu.