Ummæli Gustavos Poyets, knattspyrnustjóra Brighton, um Patrice Evra, leikmann Manchester United, í morgun féllu að vonum í grýttan jarðveg hjá Alex Ferguson, stjóra United, sem svaraði þeim á fréttamannafundi sínum í dag.
Poyet sagði að Evra væri grenjuskjóða og hélt uppi fullum vörnum fyrir landa sinn, Luis Suárez, sem hefur verið kærður fyrir kynþáttaníð gagnvart Evra eftir leik United og Liverpool fyrir skömmu.
„Ummælin hjá Gus Poyet eru óviðeigandi á þessari stundu. Fólk um allan heim fordæmir kynþáttafordóma og hann valdi rangan tíma fyrir þetta. Ég skil vel að hann vilji verja landa sinn en hann verður að hugasa málið betur. Ég veit ekki hvernig spurningu hann fékk en gagnrýni hans á Evra virðist ansi kjánaleg," sagði Ferguson á fréttamannafundi sínum.
„Knattspyrnusambandið hefur beðið okkur að segja ekkert meira um málið hjá Evra og við höfum farið eftir því. Liverpool hefur hinsvegar látið alls kyns hluti leka frá sér undanfarnar tvær vikur, en knattspyrnusambandið mun taka á því," sagði Ferguson.