Enska knattspyrnufélagið Manchester City tapaði 195 milljónum punda, eða tæplega 37 milljörðum íslenskra króna, á síðasta reikningsári, sem er met hjá ensku félagi.
„Tap eins og þetta, sem var fyrirséð sem hluti af fjárfestingaráætlun okkar, mun ekki endurtaka sig," sagði Graham Wallace markaðsstjóri City þegar þetta var tilkynnt í dag.
Manchester City hefur fjárfest gífurlega í leikmönnum frá árinu 2008 þegar Sheikh Mansour keypti félagið. Það er nú á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og spilar í Meistaradeild Evrópu í fyrsta skipti.