Gustavo Poyet, knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Brighton, styður landa sinn frá Úrúgvæ og leikmann Liverpool, Luis Suárez, heilshugar í deilunni um hvort hann hafi viðhaft kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra, leikmanni Manchester United.
Enska knattspyrnusambandið hefur kært Suárez fyrir meint ummæli í garð Evra í leik liðanna á dögunum en Evra fullyrti að Suárez hefði notað móðgandi orð í sinn garð í það minnsta tíu sinnum í leiknum.
Suárez hefur harðlega neitað ásökunum og kveðst aðeins hafa notað orð sem algengt sé í spænsku og sé ekki lítillækkandi, enda noti liðsfélagar Evra hjá Manchester United það sjálfir við hann.
„Ég spilaði í sjö ár á Spáni og var kallaður alls kyns nöfnum vegna þess að ég var frá Suður-Ameríku. Ég hljóp aldrei til eins og smákrakki, eins og Patrice Evra, og kvartaði yfir því að einhver hefði sagt eitthvað við mig.
Ég trúi Suárez, það er mjög einfalt, og ég er hissa og afar leiður yfir því hvernig staðið hefur verið að kærunni. Hvernig er hægt að kæra einhvern vegna orða annars aðilans? Þetta er alltof auðvelt. Ég gæti kvartað yfir öðrum knattspyrnustjóra, og ef ég fylgi því eftir verður hann kærður. Hvers vegna er öðrum aðilanum trúað þegar orð stendur gegn orði?" sagði Poyet í viðtölum við enska fjölmiðla.