Redknapp: Frábært að koma aftur

Harry Redknapp fylgist með leiknum í kvöld af hliðarlínunni.
Harry Redknapp fylgist með leiknum í kvöld af hliðarlínunni. Reuters

Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði eftir sigurinn á Aston Villa í kvöld að vonandi þyrfti hann ekki að fylgjast aftur með leikjum liðsins í sjónvarpinu. Hann sneri aftur eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð í byrjun mánaðarins.

Tottenham vann 2:0 með tveimur mörkum frá Emmanuel Adebayor og Redknapp kvaðst afar ánægður með sannfærandi sigur liðsins.

„Ég naut þess að horfa á liðið spila í kvöld, og held að stuðningsmenn okkar hafi gert það líka. Þeir hafa séð mörg frábær lið og þeir njóta þess hvernig þetta lið spilar. Það er frábært að vera kominn aftur, ég myndi ekki vilja horfa aftur á liðið heima í stofu. Það tók á taugarnar," sagði Redknapp við Sky Sports.

Eftir mikla sigurgöngu undanfarnar vikur eru margir farnir að velta fyrir sér möguleikum Tottenham á því að slást við Manchesterliðin um meistaratitilinn, en liðið er nú í þriðja sætinu. Redknapp tók ekki sérstaklega undir það.

„Þetta verður mjög jafnt en við reynum að enda eins ofarlega og við getum, og það er ómögulegt að segja fyrir um hve langt við getum náð. Ef við náum að komast í hóp fjögurra efstu liðanna á ný verð ég hæstánægður. Allt framyfir það er bónus en það verður afar erfitt að halda sér meðal fjögurra efstu," sagði Redknapp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert