Jonathan Woodgate, varnarmaður Stoke City, segir að sitt gamla félag, Tottenham, sé líklegra en Manchester United til að veita Manchester City keppni um enska meistaratitilinn í vetur.
Woodgate var í liði Stoke sem stöðvaði sigurgöngu Tottenham á sunnudaginn með 2:1 sigri en fram að því hafði Lundúnaliðið unnið tíu og gert eitt jafntefli í síðustu ellefu leikjum sínum í deildinni. Nokkrir dómar þóttu þar falla Tottenham verulega í óhag en liðið fékk ekki augljósa vítaspyrnu og löglegt mark var dæmt af liðinu.
„Spurs er firnasterkt lið. Það er gífurlegur hraði í öllum stöðum, ógnvekjandi fyrir mótherjana. Og hæfileikarnir í liðinu, í bland við hraðann, gera þá að verulega góðu liði. Ef litið er á leikmann fyrir leikmann, eru Tottenham og Manchester City með sterkustu leikmannahópana í deildinni. Aðeins City er Tottenham framar að því leyti. Ég held að Tottenham fari langt með að vinna deildina, ef ekki í ár þá á næsta tímabili," sagði Woodgate við ESPN.