Það er ekki bara í Liverpool-borg sem menn eru óhressir með 8 leikja bannið sem Luis Suárez, leikmaður Liverpool, fékk í gær. Nú hefur ríkisstjórn Úrúgvæ sent sínum manni yfirlýsingu um fullan stuðning og boðið honum alla þá aðstoð sem hún geti veitt.
Íþróttamálaráðherra Úrúgvæ, Ernesto Irureta, sagði við dagblaðið Ultimas Noticias í Montevideo að ríkisstjórn landsins væri afar ósátt við það sem gerst hefði í Englandi.
„Svona bann er fáránlegt, óviðeigandi og algjörlega út úr korti. Þar fyrir utan er sagt að hinn íþróttamaðurinn (Patrice Evra) hafi kallað Luis "sudaca", sagði Irureta, en það er spænskt skammaryrði yfir Suður-Ameríkubúa.
„Það sem nú er í gangi í Evrópu er heimatilbúið vandamál hjá Evrópubúum en ekki vandamál innan vallar hjá leikmönnum. Það gengur ýmislegt á í okkar landi en ekkert í líkingu við það sem um er að vera í "gamla heiminum,"" sagði íþróttamálaráðherrann ennfremur.
Þá lýsti lögfræðingur Suárez, Úrúgvæinn Alejandro Balbi, því yfir á blaðamannafundi í Montevideo í dag að Suárez myndi áfrýja úrskurði enska knattspyrnusambandsins.