Stórleikur í Manchester í kvöld

Craig Bellamy framherji Liverpool.
Craig Bellamy framherji Liverpool. Reuters

Fjörið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu heldur áfram í kvöld en þrír leikir fara fram í deildinni. Það verður sannkallaður stórleikur í Manchester þegar Liverpool sækir topplið Manchester City heim.

Liverpool fer upp að hlið Chelsea í fjórða sæti deildarinnar með sigri en Manchester City getur aukið forskot sitt á Manchester United á toppnum í þrjú stig takist liðinu að vinna.

Liverpool hefur verið á góðu skriði. Það hefur aðeins tapað einum af síðustu 14 leikjum sínum í deildinni og er það lið sem hefur fengið fæst mörk á sig allra liða í deildinni. Luis Suárez kemur væntanlega inn í byrjunarlið Liverpool eftir að hafa afplánað eins leiks bann og þá er spurning hvort fyrirliðinn Steven Gerrard fái tækifæri í byrjunarliðinu en hann kom inná gegn Newcastle á föstudaginn og skoraði þriðja markið í 3:1 sigri.

Manchester City hefur skorað flest mörk allra liða í deildinni en því hefur ekki tekist að skora í tveimur síðustu leikjum og það er spurning hvernig tapið gegn Sunderland hefur farið í lærisveina Roberto Mancini. Mario Balotelli gæti snúið aftur inn í liðið en ökklameiðsli komu í veg fyrir að hann spilaði gegn Sunderland.

Leikir kvöldsins:

19.45 Tottenham - WBA
19.45 Wigan - Sunderland
20.00 Manchester City - Liverpool

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert