Enska dagblaðið The Independent birtir í fyrramálið frétt um að Manchester United ætli að selja Wayne Rooney, vegna ósættis á milli hans og Alex Fergusons knattspyrnustjóra.
Þetta kvisaðist út í kvöld og forráðamenn Manchester United brugðust snöggt við og hafa þegar vísað fréttinni á bug, áður en hún hefur formlega verið birt!
Í yfirlýsingu á vef United segir:
„Manchester United og Wayne Rooney hefur verið gert viðvart um grein sem mun birtast í dagblaðinu Independent í fyrramálið.
Við höfum ekki séð fréttina í heild sinni en getum fullvissað alla stuðningsmenn United um að knattspyrnustjórinn og félagið standa með Wayne Rooney og Wayne stendur með félaginu.
Leikmaðurinn og stjórinn hafa alltaf borið og bera áfram mikla virðingu hvor fyrir öðrum og hlakka til að starfa áfram saman komandi ár.
Allar vangaveltur um að Manchester United og Wayne Rooney ætli að skilja að skiptum eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar.“
Sjálfur er Rooney búinn að bera fregnina til baka á Twitter og þar segir hann:
„Independent fer með tóma þvælu, framtíð mín er hjá Manchester United og ég og félagið stöndum algjörlega saman. Við stjórinn eigum ekki í neinum deilum og hver sá sem heldur öðru fram veit ekkert um hvað hann er að tala."