„Tilfinningin þegar ég skoraði var undraverð,“ sagði Frakkinn Thierry Henry eftir að hafa tryggt Arsenal sigurinn á Leeds í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld. Henry, sem yfirgaf Arsenal fyrir fjórum og hálfu ári, kom inn á sem varamaður og skoraði eina markið stundarfjórðungi fyrir leikslok.
„Þetta er hálffáránlegt. Ég kom aftur eftir frí í Mexíkó fyrir 15 dögum og ég hélt að ég myndi ekki spila fyrir Arsenal á nýjan leik. Ég er kominn aftur sem stuðningsmaður og að skora sem stuðningsmaður er furðulegt og nú veit ég hvernig það er. Ég mun alltaf muna eftir þessu kvöldi,“ sagði Henry, sem var valinn maður leiksins af áhorfendum ESPN-sjónvarpsstöðvarinnar.