Wayne Rooney, framherji Manchester United, gefur lítið fyrir þau ummæli Robertos Mancinis, knattspyrnustjóra Manchester City, að hann hafi átt mestan þátt í því að Vincent Kompany, fyrirliði City, fékk rauða spjaldið á 12. mínútu bikarleiks liðanna í gær.
Mancini sagði eftir leikinn að Rooney hefði greinilega haft mikil áhrif á Chris Foy dómara og þá ákvörðun hans að lyfta rauða spjaldinu.
„Fyndið hvernig fólki dettur í hug að það hafi verið ég sem lét reka Kompany af velli. Ég er ekki dómarinn og ég lyfti ekki rauða spjaldinu. En þetta var augljóslega rautt spjald, enda tveggja fóta tækling," sagði Rooney á Twitter í morgun.