„Tek þrjá mánuði í einu“

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. mbl.is/Eggert

„Þetta er frágengið, það á bara eftir að skrifa undir og ég geri það eftir æfingu í fyrramálið,“ sagði Hermann Hreiðarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær. Hermann, sem hefur verið á mála hjá Portsmouth undanfarin ár, mun í dag ganga til liðs við Coventry, en liðið er í neðsta sæti ensku B-deildarinnar.

Hermann hefur lítið fengið að spila með Portsmouth síðustu mánuðina og ákvað því að skipta um félag. „Þetta leggst stórvel í mig enda fæ ég að spila fótbolta og það er það sem málið snýst um, að fá að spila. Fyrst stjórinn valdi alltaf vitlaust lið verður maður að gera eitthvað í hlutunum sjálfur,“ sagði Hermann að vanda léttur í bragði.

Hermann býr ásamt fjölskyldu sinni í Portsmouth á suðurströnd Englands en Coventry er 225 kílómetrum norðar. Ætlar Hermann að flytja?

„Nei, nei, þetta er samningur til þriggja mánaða og það tekur því ekki að flytja fyrir þann tíma. Ég keyri bara á milli og þá gistir maður kannski tvær nætur í viku í Coventry. Við höldum okkur við sjóinn enda eru krakkarnir hér í skóla og maður rífur þau ekki upp fyrir ekki lengri tíma,“ sagði Hermann.

Staðan hjá Coventry er ekki burðug en liðið tapaði á laugardag fyrir Derby, 1:0, og er í neðsta sæti 1. deildar með 19 stig, fjórum stigum á eftir Doncaster sem er í næsta sæti þar fyrir ofan.

Nánar er rætt við Hermann í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert