André Villas-Boas, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur skorað á fótboltayfirvöld í Englandi að breyta fyrirkomulagi deildakeppninnar og heimila varaliðum stóru félaganna að taka þátt í henni, eins og gert er á Spáni.
Villas-Boas segir í The Guardian að unglingastarf og varalið í Englandi séu á villigötum því stökkið frá unglinga- og varaliðum uppí úrvalsdeildina sé alltof stórt. Þessu megi breyta með því að varaliðin fái keppnisrétt í deildakeppninni, og bendir m.a. á vel heppnaða uppbyggingu hjá Barcelona en varalið Katalóníustórveldisins hafnaði í þriðja sæti spænsku B-deildarinnar á síðasta tímabili.
„Barcelona B spilar í næstefstu deildinni og það mætti láta reyna á slíkt fyrirkomulag í Englandi. Vissulega væri hægt að leysa þetta með venslaliðum en tengingin við félagið væri miklu meiri ef það bæri sama nafn. Ef um venslalið væri að ræða, gæti ég ekki náð í leikmann þangað fyrr en félagaskiptaglugginn er opnaður. Hjá Barcelona er frábært módel í gangi. Þeir geta gefið efnilegum leikmönnum tækifæri, það er stóri munurinn á þeim og öðrum. Mér finnst kerfið ekki virka alveg hérna í Englandi," sagði Villas-Boas.
„Ef varaliðið þitt spilar í næstefstu deild, er í hópi fjögurra til sex efstu liða og spilar góðan fótbolta, gæti maður náð í leikmenn þangað ef upp koma meiðsli. Mikið samræmi væri á milli aðalliðs og varaliðs og fyrir vikið þyrfti maður ekki að vera með 26 manna aðalliðshóp. Þá væri nóg að vera með 19 leikmanna hóp og kalla síðan reglulega á unga leikmenn," sagði Portúgalinn.