Grétar skoraði í sigri á Liverpool

Grétar spyrnir hér að marki Liverpool og sekúndu síðar var …
Grétar spyrnir hér að marki Liverpool og sekúndu síðar var boltinn í markinu. Reuters

Grétar Rafn Steinsson skoraði þriðja mark Bolton með laglegum hætti í góðum 3:1-sigri á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag. Bolton komst þar með upp úr fallsæti og í 17. sætið. Liverpool er með 35 stig í 7. sæti, sex stigum á eftir Chelsea sem er í 4. sæti.

Bolton komst í 2:0 í fyrri hálfleik áður en Craig Bellamy minnkaði muninn en mark Grétars kom svo snemma í seinni hálfleiknum.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. Leik lokið. Daniel Agger komst næst því að minnka muninn fyrir Liverpool en þrumuskot hans af löngu færi fór í þverslána.

50. MARK! Siglfirðingurinn Grétar Rafn Steinsson skoraði glæsilegt mark og kom Bolton í 3:1 þegar hann tók boltann glæsilega á lofti í teignum eftir skalla frá David Wheater í kjölfar hornspyrnu, og skaut neðst í vinstra markhornið.

45. Hálfleikur. Martin Petrov átti frábæra aukaspyrnu rétt áður en flautað var til hálfleiks en Pepe Reina sá við honum með mjög góðri markvörslu.

37. MARK! Liverpool náði að minnka muninn í 2:1 þegar Craig Bellamy slapp einn í gegnum vörn Bolton, eftir að Andy Carroll fór upp í skallaeinvígi, og skoraði.

29. MARK! Heimamenn spiluðu Liverpool-liðið sundur og saman í sókn sem lauk með því að Nigel Reo-Coker skoraði af markteig eftir sendingu frá Chris Eagles.

4. MARK! Bolton komst yfir í byrjun leiks þegar Mark Davies fékk að komast óáreittur með boltann inn í miðjan vítateig Liverpool og skoraði. Draumabyrjun heimamanna.

0. Leikurinn er hafinn.

Bolton: Bogdan, Grétar Rafn, Knight, Wheater, Ricketts, Eagles, Reo-Coker, Muamba, M Davies, Petrov, Ngog.
Varamenn: Lynch, Tuncay, K Davies, Pratley, Boyata, O'Halloran, Riley

Liverpool: Reina, Johnson, Agger, Skrtel, Enrique, Gerrard, Henderson, Adam, Maxi, Bellamy, Carroll.
Varamenn: Doni, Coates, Kuyt, Downing, Carragher, Shelvey, Kelly.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert