Rooney: Suárez átti að fá rautt

Luis Suárez í leiknum í gærkvöld.
Luis Suárez í leiknum í gærkvöld. Reuters

Wayne Rooney, sóknarmaður Manchester United, telur að Luis Suárez hefði átt að fá rauða spjaldið í viðureign Liverpool og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Suárez kom inn á sem varamaður í fyrsta leik sínum eftir að hafa afplánað átta leikja keppnisbann. Hann sparkaði í magann á Scott Parker í atgangi við mark Tottenham seint í leiknum og fékk gula spjaldið fyrir.

„Fyrst dómarinn sá sparkið frá Suárez og gaf honum spjald átti það að vera rautt,“ sagði Rooney á Twitter í gærkvöld.

Hann fékk sterk viðbrögð við þessum orðum en svaraði þá: „Ykkur sem talið um skaphitann í mér vil ég benda á að ég hef ekki fengið eitt gult spjald í úrvalsdeildinni í vetur.“

Gary Neville, fyrrverandi samherji Rooneys hjá United, sagði í lýsingu Sky Sports: „Suárez  var heppinn, dómarinn gaf honum tækifæri þarna.“

Manchester United tekur á móti Liverpool í úrvalsdeildinni á laugardaginn kemur. Suárez fékk átta leikja bannið fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra, leikmanni United, þegar liðin mættust í október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka