„Mancini kom fram við mig eins og hund“

Carlos Tévez hallaði sér bara aftur á bekknum þegar hann …
Carlos Tévez hallaði sér bara aftur á bekknum þegar hann átti að koma inná gegn Bayern í Meistaradeildinni á síðasta ári. Reuters

Carlos Tévez, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, er á leið til baka eftir langa fjarveru vegna agabrots. Flestir þekkja söguna hvers vegna Tévez fór til Argentínu og neitaði að æfa eða spila með liðinu, auk þess kærði Roberto Mancini knattspyrnustjóri liðsins sig lítið um að hafa hann.

Allt byrjaði þetta þegar Manchester City spilaði gegn Bayern í Meistaradeildinni seinni hluta síðasta árs og Tévez neitaði að koma inn á af bekknum. Argentínski framherjinn hefur nú tjáð sig um það sem gerðist á hliðarlínunni í þessum afdrifaríka leik í samtali við BBC, breska ríkisfjölmiðilinn.

„Ég var í frekar vondu skapi og þegar hann [Mancini] tók Edin Dzeko af velli fyrir Nigel de Jong þegar við vorum að tapa 2:0, fannst mér það vera merki um varnarsinnaða skiptingu þannig að ég hallaði mér bara aftur á bekknum,“ sagði Tévez.

Hann segir svo að Dzeko og Mancini hafi farið að rífast eftir að Dzeko neyddist til að setjast við hliðina á stjóranum. „Í miðju rifrildi þeirra á milli snýr hann sér við og sér mig, þú getur rétt ímyndað þér hvað gerist.

Hann er í miðju rifrildi og segir mér svo að halda áfram að hita upp og kemur fram við mig eins og hund,“ segir Tévez og bætir því við að hann sjálfur hafi allan tíman verið mjög rólegur en það sama hafi ekki verið hægt að segja um Mancini.

Þá sagði hann það jafnframt hafa verið sársaukafullt að sjá stuðningsmenn félagsins brenna treyjur með nafninu hans. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig honum verður tekið þegar hann snýr aftur í læknisskoðun á næstu dögum. Hann hefur ekki sést í Manchester-borg síðan 7. nóvember á síðasta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert