Ítalski markvörðurinn Massimo Taibi ber saman sína misheppnuðu dvöl hjá Manchester United við byrjunina hjá Spánverjanum David de Gea.
United keypti Taibi árið 1999 fyrir 4,5 milljónir punda en hann lék aðeins fjóra leiki á því eina tímabili sem hann var í herbúðum liðsins. Ítalinn gerði sig sekan um skelfileg mistök og hlaut harða gagnrýni ekki síst frá stuðningsmönnum. Hann hlaut meðal annars viðurnefnið blindi Feneyingurinn.
De Gea hefur ekki byrjað sem best sinn feril hjá Englandsmeisturunum og hefur Spánverjinn ungi mátt þola mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína en hann hefur gert nokkuð ljót mistök sem hafa kostað United stig og mörk.
„Ég sé svolítið af sjálfum mér í De Gea, sem hefur átt erfitt í byrjun. En nú er eins og honum sé sýnt meira traust, sem er nokkuð sem ég fékk ekki. Hann er núna að byrja að sanna gildi sitt,“ sagði hinn 41 árs gamli Taibi við netmiðilinn goal.com.
Taibi lék sinn fyrsta leik með United í 3:2-sigri gegn Liverpool. Í þeim leik átti hann skógarhlaup þegar Sami Hyypia skoraði fyrra mark Liverpool.
Í leik á móti Chelsea átti hann afleitan dag þar liðið tapaði sínum fyrsta leik í langan tíma. Taibi þurfti að hirða boltann fimm sinnum úr netinu í þeim leik og síðan gerði hann hryllileg mistök í leik gegn Southampton þegar hann missti skot Matthews Le Tissiers af löngu færi á milli fóta sér. Hann missti sæti sitt í liðinu eftir það og fór þaðan í lok leiktíðar til ítalska liðsins Reggina.