Claudio Ranieri, fyrrverandi knattspyrnustjóri hjá Chelsea, hefur varað Andre Villas-Boas, stjóra Chelsea, við því að vinni Chelsea-liðið ekki titil á tímabilinu verði hann rekinn frá félaginu.
Framtíð Portúgalans, sem tók við stjórastöðunni hjá Chelsea síðastliðið sumar, er í óvissu en bæði hefur gengi liðsins ekki verið upp á það besta og þá hefur það spurst út að sumir leikmanna liðsins séu ekki sáttir við vinnuaðferðir Villas-Boas.
Ranieri veit það frá því hann var við stjórnvölinn hjá Chelsea að Roman Abramovich sættir sig ekki við nein mistök en Rússinn hefur rekið alla stjórana frá því Ranieri yfirgaf liðið sem ekki hafa unnið titil.
„Ég held að hann verði að vinna titil í ár ætli hann að halda starfi sínu. Ég var rekinn vegna þess að ég vann ekki titil. Þetta er reglan og það hefur ekkert breyst,“ segir Ranieri í viðtali við enska blaðið Daily Mirror en sjálfur hefur Ranieri átt undir högg að sækja í starfi sínu sem þjálfari Inter Mílanó.