Wenger reiður út í Belgana

Thomas Vermaelen, belgíski varnarmaðurinn hjá Arsenal.
Thomas Vermaelen, belgíski varnarmaðurinn hjá Arsenal. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er æfur út í stjórnendur belgíska landsliðsins fyrir að láta Thomas Vermaelen spila heilan vináttulandsleik gegn Grikkjum í fyrrakvöld, þrátt fyrir að hann hefði orðið fyrir ökklameiðslum í leik Arsenal og Tottenham á sunnudaginn.

Belgar  fóru til Aþenu og gerðu þar jafntefli, 1:1, við heimamenn. Wenger hefur áhyggjur af því að Vermaelen verði ekki í fullu standi fyrir leikinn mikilvæga gegn Liverpool á Anfield á morgun.

„Við sendum belgíska knattspyrnusambandinu bréf og ræddum við lækninn þeirra. Þeir neyddu hann til að mæta til Brussel. Þegar hann var kominn þangað neyddu þeir hann til að fara með liðinu. Sjáið til, ef þetta hefði verið leikur í undankeppni stórmóts hefði ég ekkert getað sagt. En þetta var vináttuleikur. Og hvað var málið? Þeir eru ekki einu sinni í lokakeppni EM. Þetta er því óskiljanlegt, sérstaklega þar sem við eigum að spila bæði laugardag og þriðjudag,“ sagði Wenger á fréttamannafundi sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert