Fulham burstaði Wolves, 5:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag á Craven Cottage, heimavelli Fulham í London.
Fulham vann þar með sinn þriðja deildaleik í röð, í fyrsta skipti sem það gerist í fjögur ár, og liðið lyfti sér uppí 8. sætið með 36 stig, þar sem það er nú aðeins þremur stigum á eftir Liverpool.
Úlfarnir duttu hinsvegar niður í fallsæti, það átjánda, á lakari markatölu en QPR og Blackburn, en liðin eru öll með 22 stig.
Fulham komst yfir á 37. mínútu þegar rússneski framherjinn Pavel Pogrebniak skoraði af stuttu færi og hann var aftur á ferðinni á 44. mínútu með hörkuskoti eftir sendingu frá Andy Johnson, 2:0 í hálfleik.
Clint Dempsey bætti við þriðja marki Fulham á 56. mínútu, 3:0, eftir sendingu frá Danny Murphy.
Pogrebniak var ekki hættur því Rússinn fullkomnaði þrennuna á 61. mínútu, 4:0. Hann sendi boltann í tómt markið eftir að Wayne Hennessey markvörður Úlfanna hélt ekki boltanum eftir skot frá Johnson.
Leikmenn Fulham héldu veislunni áfram og Dempsey skoraði sitt annað mark á 83. mínútu, 5:0, með góðu skoti eftir að leikmenn Wolves voru spilaðir sundur og saman.
Eggert Gunnþór Jónsson var á meðal varamanna Wolves í dag en kom ekkert við sögu.