Fjórir framherjar gegn AC Milan?

Theo Walcott verður örugglega með Arsenal í kvöld.
Theo Walcott verður örugglega með Arsenal í kvöld. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segir að það sé freistandi fyrir sig að leggja allt í sölurnar og spila bullandi sóknarleik gegn AC Milan í kvöld, til þess að freista þess að vinna upp fjögurra marka forskot Ítalanna.

Liðin mætast á Emirates í London klukkan 19.45 en þetta er síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Möguleikar Arsenal eru ekki sérstaklega miklir eftir skell, 4:0, í fyrri leiknum á Ítalíu.

Wenger kveðst þó alls ekki hafa gefið upp vonina og segir að fyrst AC Milan gat unnið 4:0 á sínum heimavelli geti Arsenal það fyrir framan sína stuðningsmenn. Og hann hefur hug á að sækja af krafti frá byrjun.

„Það er freistandi. Sem stendur er ég bara með tvo miðjumenn heila, Song og Rosický. Það þýðir að ég verð að vera með fjóra framherja. Við getum spilað hvaða leikkerfi sem ykkur dettur í hug en ég ætla ekki að gefa það upp að svo stöddu. Svo veit ég ekki strax hvort Rosický verði leikfær, og verði hann það ekki er ég í talsverðum vanda. En ég er með sex sóknarmenn til reiðu - og ég get tekið áhættuna því í raun á ég ekki annars úrkosta,“ sagði Wenger á fréttamannafundi í gær.

Hann sagði jafnframt að það væri ekki í myndinni að hvíla neinn, allra síst Robin van Persie. „Ég get ekki sagt á sannfærandi hátt að ég ætli að vinna upp fjögurra marka forskot ef ég myndi hvíla Robin van Persie!“ sagði  Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert