Arsenal sigraði Newcastle, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í kvöld og er komið með 52 stig í fjórða sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir Tottenham. Newcastle er áfram í 6. sæti með 44 stig.
Hatem Ben Arfa kom Newcastle yfir á 14. mínútu en Robin van Persie jafnaði fyrir Arsenal strax í næstu sókn. Arsenal sótti linnulítið í seinni hálfleik en allt stefndi í jafntefli þegar Thomas Vermaelen skoraði sigurmarkið á fimmtu mínútu í uppbótartímanum.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
90+9. LEIK LOKIÐ með verðskulduðum sigri Arsenal, 2:1, en tæpt var það. Leikið í eina mínútu eftir að hægt var að byrja aftur á miðju eftir markið frá Vermaelen. Tim Krul er afar heitt í hamsi og hann virðist eiga eitthvað verulega vantalað við Robin van Persie.
90+7. Robin van Persie fær gula spjaldið fyrir einhverjar útistöður við Tim Krul, markvörð Newcastle, sem líka fær gula spjaldið. Leikurinn er enn ekki hafinn eftir markið vegna rifrildis leikmanna.
90+5. MARK - Á síðustu mínútu uppbótartímans kemur verðskuldað mark. Skyndisókn Arsenal, Theo Walcott sendir fyrir frá hægri, skallað á markteig, boltinn fellur fyrir Thomas Vermaelen sem er orðinn fremsti maður og skorar úr markteignum!
90+1. Theo Walcott í góðu færi en skýtur í varnarmann og í horn. Arsenalmenn vilja fá vítaspyrnu, telja að boltinn hafi farið í hönd Newcastlemannsins. Fá bara horn, sem er rétt niðurstaða.
90. Tim Krul ver skalla frá Thomas Vermaelen með tilþrifum - slær boltann yfir þverslána. Uppbótartíminn að hefjast. Fimm mínútum bætt við.
85. Simpson bjargar á marklínu Newcastle frá Thomas Vermaelen.
83. Gervinho hittir ekki boltann í upplögðu færi á markteig Newcastle!
81. Skipting hjá Newcastle. Danny Guthrie kemur inná fyrir Cheick Tiote, sem virðist meiddur. Gæti hafa tognað í læri.
79. Robin van Persie í dauðafæri við vinstra markteigshorn eftir sendingu frá Kieran Gibbs. Hann hittir boltann illa með hægri og hann fer framhjá stönginni fjær.
77. Og það er eins og við manninn mælt. Arsene Wenger tekur Tomás Rosický af velli og setur Aaron Ramsey inná í staðinn.
75. Rio Ferdinand, miðvörður Man.Utd, á Twitter: „Rosický er maður leiksins með yfirburðum... snýr sér, spilar, ógnar, tæklar. Virðist aftur í sínu besta formi eftir meiðslin... gott að sjá það."
68. Skipting hjá Arsenal. Gervinho kemur inn á fyrir hinn unga Alex Oxlade-Chamberlain.
67. Tomás Rosický í dauðafæri rétt utan markteigs eftir að Theo Walcott kemst að endamörkum hægra megin og rennir boltanum út. Tékkinn hittir boltann herfilega illa, svo illa að hann fer út fyrir hliðarlínu og í innkast!
65. Francis Lee, fyrrverandi stjarna Manchester City og enska landsliðsins, á Twitter: „Demba Ba er fjandi góður leikmaður, langt síðan ég hef séð framherja sem kemst svona nálægt því að vera gamaldags framherji. Sá getur spilað!“
63. GULT - Cheick Tiote, miðjumaður Newcastle, fær fyrsta gula spjald kvöldsins, fyrir brot á Tomás Rosický sem er mjög áberandi í leik Arsenal í seinni hálfleiknum.
61. Shola Ameobi kemur inn á fyrir Gabriel Obertan hjá Newcastle.
57. Robin van Persie er enn ágengur við mark Newcastle. Nú fær hann sendingu frá Tomás Rosický inn í vítateiginn og er einn gegn Tim Krul, í nokkuð þröngu færi þó, og landi hans ver skot hans með fætinum, eins og handboltamarkvörður.
55. Robin van Persie í fínu færi við vítapunktinn en skýtur beint á Tim Krul í marki Newcastle. Með hægri fæti reyndar.
48. Nokkuð lífleg byrjun á seinni hálfleik og Tim Krul í marki Newcastle ver vel skalla frá Tomás Rosický.
46. Seinni hálfleikur er hafinn á Emirates. Breyting hjá Newcastle. James Perch er kominn í staðinn fyrir Davide Santon. Meiðsli samkvæmt fyrstu fréttum.
45. Hálfleikur, staðan 1:1 og frekar tíðindalítið síðan mörkin tvö komu með mínútu millibili snemma leiks. Mikil miðjubarátta, en lið Newcastle gefur fá færi á sér og er vel skipulagt, og til alls líklegt í snöggum sóknum.
20. Robin van Persie hefur nú sett hollenskt markamet í ensku úrvalsdeildinni. Þetta var hans 26. mark í deildinni í vetur en Ruud van Nistelrooy skoraði 25 mörk fyrir Manchester United tímabilið 2002-03. @InfostradaLive á Twitter.
15. MARK - 1:1. Robin van Persie er strax búinn að jafna! Arsenal fer beint í sókn eftir mark Newcastle. Theo Walcott fær boltann upp hægri kantinn og sendir í átt að vítapunktinum á van Persie sem snýr af sér varnarmann og afgreiðir boltann með jörðinni í hægra hornið.
14. MARK - 0:1. Newcastle nær forystunni með laglegu marki Hatem Ben Arfa. Slæm sending frá Thomas Vermaelen á sínum vallarhelmingi, Newcastle brunar upp, Gabriel Obertan sendir boltann inn í vítateiginn hægra megin þar sem Ben Arfa platar Kieran Gibbs og sendir boltann með vinstri fæti í markhornið nær.
1. Leikurinn er hafinn.
Lið Arsenal: Szczesny, Sagna, Koscielny, Vermaelen, Gibbs, Song, Arteta, Rosicky, Walcott, Oxlade-Chamberlain, Van Persie.
Varamenn: Fabianski, Djourou, Santos, Ramsey, Benayoun, Gervinho, Chamakh.
Lið Newcastle: Krul; Simpson, Williamson, Coloccini, Santon; Obertan, Cabaye, Tiote, Gutierrez; Ben Arfa; Ba.
Varamenn: Guthrie, Cisse, Perch, Gosling, Shola Ameobi, Vuckic, Elliot