Leik Tottenham og Bolton í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu var hætt eftir um 40 mínútna leik. Fabrice Muamba, tæplega 24 ára gamall miðjumaður Bolton, hneig niður á vellinum og er talið að hann hafi fengið hjartaáfall.
Muamba var borinn meðvitundarlaus af velli og fluttur á sjúkrahús.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
44. Leikurinn hefur verið flautaður af. Talið er að Muamba hafi fengið hjartaáfall og er verið að flytja hann á sjúkrahús.
44. Howard Webb dómari hefur kallað leikmenn liðanna af velli og óvíst hvort leik verður haldið áfram. Muamba var borinn af velli og ekkert er vitað um ástand hans.
44. Eitthvað afar alvarlegt virðist hafa gerst. Fabrice Muamba lagðist í jörðina þegar enginn var nálægt honum og hefur leikurinn verið stöðvaður. Læknar úr báðum liðum eru á vellinum til að aðstoða Muamba en sjónvarpsvélarnar sýna hann ekki. Þær sýna hins vegar andlit annarra leikmanna og áhorfenda og margir virðast mjög óttaslegnir.
31. Ivan Klasnic var nálægt því að skora fyrir Bolton úr skyndisókn en hann þrumaði í hliðarnetið úr ágætu færi vinstra megin í teignum.
11. MARK! Heimamenn voru fljótir að jafna metin í 1:1. Gareth Bale átti mjög góða fyrirgjöf frá vinstri og bakvörðurinn Kyle Walker kom þar á ferðinni, vann skallaeinvígi og skoraði.
6. MARK! Bolton komst yfir með marki eftir hornspyrnu. Darren Pratley skallaði að marki eftir hornspyrnu Martin Petrov en boltinn fór af Gareth Bale og í markið. Þetta verður líklega skráð sem fyrsta mark Bale í enska bikarnum, þó reyndar hafi það verið í rangt mark.
1. Leikurinn er hafinn.
0. Grétar Rafn Steinsson er ekki í leikmannahópi Bolton að þessu sinni en ekki hafa fengist upplýsingar um hver ástæða þess er.
Tottenham: Cudicini, Walker, Gallas, Nelsen, Assou-Ekotto, Van der Vaart, Modric, Parker, Bale, Defoe, Saha.
Varamenn: Friedel, Kaboul, Dos Santos, Kranjcar, Rose, Livermore, Sandro
Bolton: Bogdan, Ricketts, Knight, Boyata, Alonso, Reo-Coker, Muamba, Pratley, Ryo, Petrov, Klasnic.
Varamenn: Jaaskelainen, Eagles, Tuncay, K Davies, Ngog, Ream, Vela.