Ferdinand: Erum þar sem við viljum vera

Rio Ferdinand fagnar marki með félögum sínum í Manchester United.
Rio Ferdinand fagnar marki með félögum sínum í Manchester United. AP

Rio Ferdinand, varnarmaðurinn reyndi hjá Manchester United, segir að liðið sé einmitt statt þar sem það vilji vera - á toppi úrvalsdeildarinnar, og þar ætli leikmennirnir að halda því til loka tímabilsins.

Eitt stig skilur að United og Manchester City þegar níu leikjum er ólokið. Grannliðin eiga eftir að mætast í lok apríl, og hafa því bæði málin í sínum höndum - hvoru um sig dugar að vinna sína leiki til að verða meistari.

„Við erum þar sem við viljum vera á þessari sundu. Við viljum vera efstir á þessum tímapunkti vetrarins, en það sem skiptir meira máli er að við ætlum að vera efstir til loka tímabilsins. Þetta er mikilvægasti kaflinn - hver einasti leikur verður að vinnast. Við verðum meistarar ef við vinnum okkar leiki, og það er markmiðið,“ sagði Ferdinand við Sky Sports í dag.

Spurður hver sé lykillinn að árangri liðsins á undanförnum árum og áratugum svaraði Ferdinand: „Sennilega eru það reynslan, og svo sigurþráin sem kemur frá stjóranum. Hann vill ekkert nema sigra, og hefur verið hér í rúmlega 20 ár. Ef hann er enn fullur sigurlöngunar, þá ættu þeir sem hafa verið hér í tíu, fimm, tvö eða eitt ár líka að vera einbeittir á að sigra. Þeir verða að hafa sömu trú og þrá í brjósti til að vinna titla.

Við vorum í þeirri stöðu að vera aðeins á eftir í baráttunni. Nú erum við komnir á toppinn og verðum að halda okkur þar. Engin tilfinning er betri en sú að vera með sigurmedalínuna um hálsinn í mótslok. Slíkar minningar lifa og hvetja mann til frekari dáða, og reyna að halda áfram að skrifa sögu félagsins,“ sagði Rio Ferdinand.

Næsti leikur United er gegn Fulham en fer ekki fram fyrr en á mánudaginn, þannig að Manchester City gæti í millitíðinni náð efsta sætinu á ný með jafntefli eða sigri gegn Stoke City á útivelli á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert