Landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson, sem leikur með enska úrvalsdeildarliðinu Bolton, telur líklegt að hann rói á önnur mið eftir leiktíðina en samningur hans við félagið rennur út í sumar. Grétar hefur verið á mála hjá Bolton frá árinu 2008 en hann kom til liðsins frá hollenska liðinu AZ Alkmaar sem hann lék með frá 2005.
„Framtíð mín í fótboltanum er í óvissu en ég er svo sem ekkert að stressa mig á því núna. Ég einbeiti mér bara af því að klára tímabilið vel og vonandi tekst liðinu að halda sæti sínu í deildinni. Ég tel litlar líkur á að ég verði um kyrrt hjá Bolton. Ég nýt þess að spila í hverri viku og síðan sé ég til hvað verður. Við erum ellefu leikmennirnir sem verðum samningslausir eftir tímabilið. Margir af okkur eru að spila og þetta er frekar skrýtið ástand,“ sagði Grétar, sem hefur átt fast sæti í liðinu síðustu vikurnar en hann hefur komið við sögu í 19 í úrvalsdeildinni á tímabilinu og hefur í þeim skorað 1 mark.
Nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.