Ferguson: Örvænting að tefla fram Tévez

Alex Ferguson.
Alex Ferguson. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að fyrst Patrick Vieira telji það örvæntingu hjá sér að kalla Paul Scholes aftur inn í lið sitt í vetur, megi hæglega segja slíkt hið sama um þá ákvörðun Manchester City að tefla Carlos Tévez fram á nýjan leik.

Vieira sagði í vikunni að það segði sitt um stöðu mála hjá United núna að Ferguson hefði þurft að leita til Paul Scholes, sem hefði verið hættur, og United væri farið að missa frá sér efnilega leikmenn á borð við Ravel Morrison, og Paul Pogba gæti farið sömu leið.

„Ef einhver talar um örvæntingu, þá notuðu þeir í fyrradag leikmann sem neitaði að fara inná völlinn fyrr í vetur og stjórinn sagðist aldrei ætla að nota aftur - eftir fimm mánaða frí í Argentínu. Hvað er það eiginlega? Flokkast það kannski sem örvænting?,“ sagði Ferguson og taldi ummælin hjá Vieira fyrst og fremst lið í taugastríði milli félaganna.

„Ef það er örvænting að kalla aftur í besta miðjumann Bretlandseyja undanfarin 20 ár, þá getum við fallist á það. En ég held að Vieira hafi verið fyrirskipað að tala svona. Roberto Mancini var með svipuð skot um daginn. Við eigum allir eftir að skjóta hver á annan næstu vikurnar og það er nóg til af skotfærum,“ sagði Ferguson á fréttamannafundi sínum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert