Shearer mælir með Glenn Hoddle

Glenn Hoddle.
Glenn Hoddle. Reuters

Alan Shearer, fyrrum fyrirliði og markaskorari enska landsliðsins, segir að ef Harry Redknapp taki ekki við þjálfun þess í vor eigi enska knattspyrnusambandið hiklaust að leita til Glenns Hoddle um að taka við stjórn þess á ný.

Hoddle stýrði enska liðinu frá 1996 til 1999 og það þótti leika vel undir hans stjórn á HM í Frakklandi 1998, enda þótt það væri slegið út af Argentínu í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum - eftir að David Beckham var rekinn af velli. Hoddle varð síðan að segja af sér árið 1999 eftir óheppileg ummæli í garð fatlaðs fólks, og hefur ekki stjórnað liði síðan hann hætti með Wolves árið 2006.

Hoddle sagði í viðtali við The Independent í gær að ef hann dæi á morgun, væri líf hans ekki fullkomið þar sem hann hefði ekki fengið annað tækifæri til að stýra landsliði Englands. Það væri hinsvegar snjöll lausn að ráða þjálfara til bráðabirgða, þá yrði hvorki hann né leikmennirnir undir pressu í Evrópukeppninni í sumar.

Shearer sagði við BBC í dag að það væri góð hugmynd að fá Hoddle aftur til starfa. „Hann er frábær þjálfari og árangurinn hjá honum var ágætur. Harry er þó langefstur á blaði yfir þá sem ættu að fá starfið, en ef svo verður ekki, ætti að skoða stöðuna hjá Hoddle."

Glenn Hoddle er 54 ára og lék sjálfur 53 landsleiki fyrir Englands hönd á árunum 1979 til 1988. Hann stýrði Swindon og Chelsea áður en hann tók við landsliðinu, og síðan Southampton, Tottenham og Wolves eftir það.

Fabio Capello hætti störfum sem landsliðsþjálfari Englands í febrúar og knattspyrnusambandið ætlar ekki að ráða mann í staðinn fyrr en í lok tímabilsins í vor. England tekur þátt í lokakeppni EM í Póllandi og Úkraínu í sumar og mætir Frakklandi í fyrsta leiknum 11. júní. Stuart Pearce stýrði liðinu til bráðabirgða gegn Hollandi um síðustu mánaðamót og kveðst tilbúinn til að sjá um það í sumar. Harry Redknapp virðist efstur á óskalista flestra um að taka við landsliðsþjálfarastarfinu en Roy Hodgson hefur einnig verið nefndur  til sögunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert