Dalglish: Vonbrigði og svekkelsi

Pepe Reina gengur af velli eftir rauða spjaldið og Kenny …
Pepe Reina gengur af velli eftir rauða spjaldið og Kenny Dalglish horfir áhyggjufullur inná völlinn. AFP

Kenny Dalglish knattspyrnustjóri Liverpool sagði eftir ósigurinn gegn Newcastle í dag að vonbrigði og svekkelsi hefðu kallað fram viðbrögð sinna manna en Pepe Reina var rekinn af velli með rautt spjald og Andy Carroll hljóp beina leið til búningsklefa þegar honum var skipt af velli.

„Strákarnir voru svekktir og það er væntanlega skýringin á rauða spjaldinu sem Pepe Reina fékk. Það voru vonbrigðin yfir því að vera að tapa. Þegar Andy Carroll kemur af velli og hleypur beint niður göngin er það fyrst og fremst vegna vonbrigða og svekkelsis.

Slíkt er í lagi en menn verða hinsvegar að gæta þess að höndla það á réttan hátt. Ef við stöndum ekki saman og treystum hver öðrum verður þetta enn erfiðara," sagði Dalglish við Sky Sports.

Hann sagði að ekki hefði verið um vítaspyrnu að ræða þegar Carroll datt í dauðafæri og fékk gula spjaldið fyrir leikaraskap. „Þetta var ekki víti og ég held að hann hafi ekki verið að láta sig detta viljandi. Hann sagðist ekki hafa gert það, hann hefði hrasað. Það var ekki víti og við gerum engar athugasemdir við gula spjaldið hans eða við rauða spjaldið hjá Reina," sagði Dalglish.

Andy Carroll fær gula spjaldið.
Andy Carroll fær gula spjaldið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert