Gengi Liverpool undanfarnar vikur er það versta í 58 ár en lærisveinar Kennys Dalglish hafa aðeins náð að innbyrða 8 stig í síðustu 12 leikjum og aðeins Wolves er með verri árangur á árinu 2012.
Liverpool hefur aðeins unnið tvo leiki í úrvalsdeildinni á þessu ári en liðið hefur tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni. Liverpool hefur tapað 11 leikjum í deildinni á tímabilinu og hefur aðeins náð að vinna 11 af 31 leik sínum.
Liverpool er í áttunda sæti deildarinnar með 42 stig, er 31 stigi á eftir erkifjendunum í Manchester United og 16 stigum frá Meistaradeildarsæti.
Liverpool-liðið hefur aðeins náð að skora 36 mörk í 31 leik eða 38 mörkum færra en Englandsmeistarar Manchester United.