Brad Jones, þriðji markvörður Liverpool, sem kom inná og varði vítaspyrnu gegn Blackburn Rovers í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld, kveðst tilbúinn í slaginn gegn Everton í undanúrslitum bikarkeppninnar á Wembley á laugardaginn.
Pepe Reina og Doni verða báðir í leikbanni þegar kemur að þessum stóra leik. Reina lýkur þar afplánun þriggja leikja banns sem hann fékk fyrir brottrekstur í síðasta mánuði, og Doni, sem annars hefði verið í markinu á Wembley, er á leið í jafnlangt bann eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leiknum við Blackburn.
Jones hefur verið í röðum Liverpool í tvö ár en aðeins byrjað einu sinni inná með liðinu. Það var í desember 2010.
„Ég er ekki alveg búinn að ná þessu ennþá, þetta hefur allt verið hálfgert sjokk - ég bjóst ekki við þessu. Nú þarf ég að ná upp einbeitingu og vera tilbúinn," sagði Jones við Sky Sports.
Hann hefði sjálfur getað fengið rauða spjaldið þegar hann braut á Yakubu, fyrrum samherja sínum hjá Middlesbrough, og fékk á sig vítaspyrnu í seinni hálfleiknum en gula spjaldið fór á loft í það skiptið. „Ég spilaði í nokkur ár með Yakubu, beið aðeins, giskaði á horn og varði síðan," sagði markvörðurinn um fyrri vítaspyrnuna sem hann varði frá sama leikmanni, strax eftir að hafa komið inná fyrir Doni í fyrri hálfleiknum.
Mikið hefur gengið á hjá Jones sem missti 6 ára gamlan son sinn, Luca, úr hvítblæði í nóvember, eftir eins árs baráttu við sjúkdóminn, en eignaðist annan í síðustu viku. Jones yfirgaf einmitt leikmannahóp Ástrala á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku sumarið 2010 þegar sjúkdómurinn uppgötvaðist.
„Þetta hafa verið erfiðir 18 mánuðir síðan sonur minn veiktist og lést og með þessum úrslitum gat ég þakkað fylgismönnum Liverpool fyrir þeirra stuðning. Sonur minn Nico fæddist síðan síðasta miðvikudag þannig að þetta hefur verið góð vika. Nú er stór leikur framundan um helgina og við verðum að vera tilbúnir og einbeittir þegar að honum kemur," sagði Jones, sem er þrítugur Ástrali og var í röðum Middlesbrough í níu ár áður en hann kom til liðs við Liverpool sumarið 2010.
Fjórði markvörður Liverpool er 18 ára gamall leikmaður unglingaliðsins, Danny Ward. Hann er nýkominn til félagsins frá Wrexham og hefur aldrei spilað meistaraflokksleik. Hann verður væntanlega á bekknum á Wembley á laugardaginn. Einn markvörður enn, Peter Gulacsi, er í röðum Liverpool en hann er í láni hjá Hull City út tímabilið.