QPR vann öruggan sigur á Swansea City, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Loftus Road klukkan 19. Gylfi Þór Sigurðsson var í liði Swansea og spilaði allan leikinn en Heiðar Helguson lék ekki með QPR.
Swansea er áfram í 14. sæti deildarinnar með 39 stig og QPR er nú í 16. sætinu með 31 stig, jafnmörg og Wigan, en fyrir neðan eru Bolton með 29, Blackburn með 28 og Wolves með 22 stig.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
76. Gylfi Þór Sigurðsson er nálægt því að laga stöðuna fyrir Swansea. Tekur boltann viðstöðulaust á lofti rétt utan vítapunkts og hann sleikir stöngina hægra megin eftir smá viðkomu í varnarmanni. Gylfi hefur haft nóg að gera við að taka horn og aukaspyrnur en félagar hans hafa ekki náð að moða úr því í vítateignum.
67. MARK - 3:0. Sigur QPR er örugglega í höfn. Akos Buzsaky skorar með miklu þrumuskoti frá vítateig.
55. MARK - 2:0. QPR stefnir í dýrmætan sigur. Jamie Mackie fær langa sendingu fram, snýr laglega á varnarmenn Swansea og skorar með föstu skoti úr vítaboganum.
45+2. Hálfleikur og QPR nær undirtökunum á góðum tíma, eins og sagt er. Swansea hefur verið mun meira með boltann eins og í flestum leikjum en ekki náð að skapa opin færi.
45+1. MARK - 1:0. Joey Barton fær boltann frá Abel Taarabt rétt innan vítateigs Swansea og skorar með þrumuskoti í vinstra hornið niðri.
15. Gylfi Þór Sigurðsson er nærri því að leggja upp mark með fyrstu hornspyrnu leiksins. Uppnám í markteig QPR, Paddy Kenny ver frá Scott Sinclair af stuttu færi og heimamönnum tekst að bjarga í horn.
1. Leikurinn er hafinn á Loftus Road.
QPR: Kenny, Onuoha, Ferdinand, Hill, Taiwo, Mackie, Barton, Diakite, Buzsaky, Taarabt, Zamora.
Varamenn: Cerny, Gabbidon, Campbell, Bothroyd, Young, Smith, Wright-Phillips.
Swansea: Vorm, Rangel, Caulker, Williams, Taylor, Gylfi, Britton, Allen, Routledge, Graham, Sinclair.
Varamenn: Tremmel, Tate, Dyer, Monk, McEachran, Moore, Gower.