Di Matteo: Við skoruðum fimm ekki tvö

Roberto Di Matteo (t.v.) gat fagnað á Wembley í dag, …
Roberto Di Matteo (t.v.) gat fagnað á Wembley í dag, annað en Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham. Reuters

Roberto Di Matteo sem stjórnar Chelsea tímabundið sér ekki hversu miklu máli það skiptir að þeir hafi fengið eitt mark gefins gegn Tottenham í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag. Þeir hafi nefnilega skorað fimm gegn aðeins einu marki andstæðinganna.

„Boltinn fór víst ekki yfir línuna. Ég get skilið það að fólk sé pirrað en ég skil ekki hversu miklu máli það skipti því við skoruðum fimm, ekki tvö,“ sagði Di Matteo.

„Okkur fannst við eiga að fá vítaspyrnu í heimaleiknum okkar gegn Tottenham þegar brotið var á Ramires, en það var ekkert dæmt. Stundum eru ákvarðanirnar þér í hag og stundum eru þær það ekki.“

Árangur Ítalans er góður með félagið en hann hefur verið við stjórnvölin í 12 leikjum og er nú komin í úrslit ensku bikarkeppninnar eftir þennan 5:1 sigur á Tottenham. Þá er hann með liðið í undanúrslitum gegn Barcelona í Meistaradeildinni. „Liðið mitt spilaði mjög vel í dag. Það er gott að halda þessum góða leik áfram. Við mætum Barcelona með mikið sjálfstraust,“ sagði Di Matteo.

Þá sagði hann það koma í ljós hvort David Luiz, sem borinn var af velli, geti verið með gegn Barcelona í miðri viku. „Hann tognaði aftaní læri, við þurfum að meta það en sem stendur lítur ekki út fyrir að hann verði með í næsta leik.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert