Adebayor: Þeir eru að drepa fótboltann

Emmanuel Adebayor, Carlo Cudicini og Ledley King mótmæla markinu umdeilda …
Emmanuel Adebayor, Carlo Cudicini og Ledley King mótmæla markinu umdeilda sem Chelsea skoraði. AFP

Emmanuel Adebayor, sóknarmaður Tottenham, var afar harðorður í garð Martins Atkinsons og dómarastéttarinnar í heild eftir að lið hans tapaði 1:5 fyrir Chelsea í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær.

Mark sem Juan Mata skoraði, eða skoraði ekki, í byrjun síðari hálfleiks var afar umdeilt en erfitt var að sjá að boltinn færi nokkurn tíma yfir marklínuna.

„Í hreinskilni sagt verðum við að skella skuldinni á dómarann. Mér fannst við spila vel en hann gerði fjölda mistaka og tók margar rangar ákvarðanir. Hversu mörg mörk hafa verið dæmd af okkur í vetur, þar sem ekki var um rangstöðu að ræða? Satt best að segja er ég orðinn dauðþreyttur á þessu og nú  tala allir um að  beita marklínutækni. Þeir verða aða gera eitthvað því þetta er að drepa deildina, bikarinn, fótboltann, þetta er að drepa allt," sagði Adebayor við Sky Sports.

Hann var líka ósáttur við þá ákvörðun Atkinsons að dæma ekki vítaspyrnu og rautt spjald á Petr Cech í seinni hálfleiknum. Cech felldi þá Adebayor í dauðafæri en Gareth Bale fékk boltann og skoraði. „Hann braut á mér, hann hefði átt að fá rautt spjald og við vítaspyrnu, og enn og aftur verðum við að benda á dómarann sem gerði fjölda mistaka," sagði Adebayor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert