Ferguson ræddi við Young um leikaraskapinn

Ashley Young flýgur með tilþrifum eftir árekstur sinn við Chris …
Ashley Young flýgur með tilþrifum eftir árekstur sinn við Chris Herd hjá Aston Villa. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst hafa rætt meintan leikaraskap við sóknartengiliðinn Ashley Young, sem hefur verið gagnrýndur harkalega að undanförnu fyrir að reyna að krækja í ódýrar vítaspyrnur.

Young þótti sýna sérstaklega leikræn tilþrif gegn Aston Villa þar sem hann rakst á varnarmanninn Chris Herd, en tókst síðan á loft og flaug tignarlega í grasið.

„Ég er búinn að ræða málin við Ashley. Hann skilur um hvað málið snýst og vonandi hefur það áhrif,“ sagði Ferguson á fréttamannafundi í morgun en sagði jafnframt að í þessum efnum hefði margt breyst.

„Í þessu tilviki hefði Ashley skorað ef varnarmaðurinn hefði ekki brotið á honum. Þetta var augljóst marktækifæri. Varnarmaðurinn snerti hann og Ashley oflék í tilraun sinni til að fá vítaspyrnu. Ég er ekki alveg viss um að hann hafi ætlað sér það en hann var vissulega afar snöggur niður. En við höfum fengið viðbrögð á þetta vegna þess að við erum Manchester United.

Ég horfði á leik Real Madrid og Bayern München í vikunni og það var algjörlega fáránlegt. Leikmenn köstuðu sér niður og veltust í grasinu, mun meira en Young var sakaður um. Svo sáum við leik Chelsea og Barcelona kvöldið eftir. Nú á tímum búast allir við því að þetta sé gert.

Svona lagað jafnar sig út. Við fengum ekki vítaspyrnu gegn Wigan í síðustu viku en öskruðum okkur ekki hása yfir því. Svona lagað gerist. Við fengum vítaspyrnu á okkur gegn Newcastle og gerðum ekki mál út af því. Maður fær slæma dóma og góða dóma. Trúið mér, þetta jafnar sig út að lokum,“ sagði Alex Ferguson sem býr sitt lið undir leik gegn Everton í hádeginu á sunnudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert