Wenger: Sama hverjir spila í apríl

Arsenal mætir Chelsea.
Arsenal mætir Chelsea. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að það skipti engu máli fyrir sig þótt einhverjir séu ekki leikfærir gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Mikel Arteta spilar ekki meira á tímabilinu vegna ökklameiðsla, Jack Wilshere nær ekkert að spila eins og vonir voru bundnar við, Yossi Benayoun má ekki leika gegn Chelsea því hann er í láni þaðan og Abou Diaby hefur verið frá að undanförnu en gæti reyndar komið við sögu á morgun.

„Þetta er ekki albesta staðan en það er ekki hægt að kvarta yfir þessu. Við eigum fjóra stóra leiki framundan og maður getur ekki ætlast til þess að í apríl séu allir heilir. Okkar leikur byggist á liðsheild og samvinnu, og þess vegna hugsum við bara um það en ekki hverjir eru leikfærir hverju sinni og hverjir ekki,“ sagði Wenger á fréttamannafundi sínum í dag.

Laurent Koscielny kemur aftur inn í hópinn eftir að hafa tekið út leikbann.

Leikur Arsenal og Chelsea er fyrsti leikur helgarinnar en hann hefst á Emirates klukkan 11.45.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert