Mancini: Ætlum að vera númer eitt í Manchester

Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Reuters

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að það grannliðanna sem hefur betur í einvíginu um enska meistaratitilinn geti með réttu kallað sig lið númer eitt í Manchesterborg.

Liðin mætast í kvöld í uppgjöri sem fer langt með að ákvarða hvort þeirra verður enskur meistari í ár. United hefur þriggja stiga forystu og er með pálmann í höndunum með sigri, og með góða stöðu ef leikurinn endar með jafntefli.

„Ef við vinnum titilinn er ekki hægt að deila lengur um það hvaða lið sé númer eitt í Manchester, allavega á þessu ári. En United er með stórkostlega sögu og við henni verður ekki haggað. Okkar markmið eiga að vera þau að gera jafnvel og United, Barcelona og Real Madrid hafa  gert,“ sagði Mancini á fréttamannafundi.

„Ég tel að við séum í stakk búnir til að vinna marga titla í framtíðinni. Sumir segja að það væri auðveldara ef aðalkeppinautarnir væru ekki í sömu borginni. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það sé gott að vinna titil í samkeppni við nágrannana, frekar en lið annars staðar í landinu. Ég kynntist þessu í Mílanó með Inter. Það er skemmtilegra að vinna grannana og það er mikilvægt fyrir Manchesterborg að vera með tvö stórlið,“ sagði Mancini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert