„Verður erfiðara gegn Newcastle en Man Utd“

Roberto Mancini (t.h.) og Alex Ferguson (t.v.).
Roberto Mancini (t.h.) og Alex Ferguson (t.v.). Reuters

Roberto Mancini knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester City hefur undanfarnar vikur verið í miklum sálfræðileik við erkifjendur sína og keppinauta um titilinn, Manchester United. Síðasta útspil hans er að láta hafa eftir sér að Newcastle verði erfiðari andstæðingur en Manchester United sem liðið mætti á mánudaginn og hafði betur 1:0.

„Leikurinn gegn Newcastle verður erfiðasti leikurinn - erfiðari en gegn United. Það er skrýtið en þannig er það,“ sagði Mancini og bætti við: „Þeir hafa átt frábært tímabil og eru að spila um það að komast í Meistaradeildina. Þá er þjálfari þeirra einn sá besti hér á Englandi, því verður þetta erfiður leikur.“

Manchester-liðin eru jöfn að stigum á toppi deildarinnar en Ítalinn segir að City hafi ekki unnið neitt ennþá. „Við erum á toppi deildarinnar en þurfum að vinna þessa tvo leiki sem eftir eru. Við þurfum að spila vel og skora til að gera það. Þeir [Manchester United] fá sex stig,“ sagði hann jafnframt, alveg handviss um getu granna sinna.

Newcastle er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Tottenham sem er í fjórða sæti en fjórum stigum meira en Chelsea sem er í því sjötta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka