Grétar Rafn Steinsson verður fjarri góðu gamni í fjórða leiknum í röð með Bolton þegar liðið mætir Stoke á Britannia í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í sunnudaginn.
Owen Coyle, knattspyrnustjóri Bolton, segir á vef Bolton í dag að Grétar sé ekki búinn að jafna sig af meiðslum sem hafa hrjáð hann síðustu vikurnar.
Bolton berst fyrir lífi sínu í deildinni. Ekkert nema sigur dugar liðinu til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Bolton og QPR eru í baráttu um að forðast fall. QPR hefur 37 stig en Bolton 35. Markatala QPR er hins vegar töluvert betri svo ef liðinu tekst að ná í stig gegn Manchester City fellur Bolton þó svo að liðið vinni Stoke.