Væri Man. Utd meistari með réttum dómum?

Manchester City getur orðið meistari á morgun.
Manchester City getur orðið meistari á morgun. Reuters

Lið Manchester United væri þegar orðið Englandsmeistari þessarar leiktíðar ef öll lykilatriði í dómgæslu hefðu verið rétt metin, samkvæmt ítarlegri rannsókn sem Daily Telegraph greinir frá.

Rannsóknin tók til 674 ákvarðana úr öllum 370 leikjum leiktíðarinnar til þessa. Skoðuð voru mikilvæg atvik sem tengdust mörkum, vítaspyrnum eða rauðum spjöldum. Af þessum 674 ákvörðunum voru 179 taldar rangar.

Niðurstaðan eftir ítarlega yfirferð var sú að lykilatriði í dómgæslu hefðu samtals kostað Manchester United sex stig, og Manchester City tvö stig. Þá ætti Tottenham samkvæmt rannsókninni að hafa þriggja stiga forskot á Arsenal í 3. sætinu. QPR væri sloppið við fall en dagar Bolton í úrvalsdeildinni væru taldir. Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig staðan í deildinni væri.

Rannsóknin sýndi að mun fleiri dómar voru Manchester City í óhag á leiktíðinni en hjá Manchester United, en færri slíkir dómar réðu úrslitum í leikjum hjá City. Alls bitnuðu 73,7% rangra dóma í leikjum Man. City á þeim ljósbláklæddu en þessi tala var 59,3% hjá Man. Utd.

Á meðal ákvarðana sem féllu United í óhag er nefndur vítaspyrnudómurinn á Rio Ferdinand sem Newcastle fékk á Old Trafford í 1:1-jafntefli liðanna og víti sem United fékk ekki á útivelli gegn Stoke þegar Jonathan Woodgate braut á Javier Hernández í 1:1-jafntefli. Hægt er að sjá lista Telegraph yfir fleiri atriði með því að smella hér.

Hafa ber í huga að ómögulegt er að segja til um hver þróun leikjanna hefði orðið þar sem hinar röngu ákvarðanir dómara voru teknar ef réttar ákvarðanir hefðu verið teknar.

Lokaumferðin í úrvalsdeildinni fer fram á morgun og þar getur Man. City tryggt sér fyrsta Englandsmeistaratitil sinn í 44 ár með sigri á QPR.

Svona væri staðan í deildinni ef allar lykilákvarðanir dómara hefðu …
Svona væri staðan í deildinni ef allar lykilákvarðanir dómara hefðu verið réttar samkvæmt rannsókninni. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert