Robin van Persie, markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar á þessari leiktíð, vildi lítið segja í dag um hversu líklegt væri að hann yrði áfram með Arsenal á næstu leiktíð.
Arsenal tryggði sér 3. sæti deildarinnar með sigri á WBA í dag og þar með sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð sem þykir auka líkurnar á að Hollendingurinn verði áfram með liðinu.
„Ég elska þetta félag og það breytist ekki sama hvað gerist. Við ræðum í vikunni við stjórann og Ivan Gazidis [framkvæmdastjóra Arsenal]. Það er óvíst hvað gerist en Arsenal er stórt og frábært félag. Ég er búinn að vera hér í átta ár og elska þetta félag,“ sagði van Persie sem er fyrirliði Arsenal og skoraði 30 mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.