Wenger: Nú sef ég betur

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, kveðst loksins geta slakað á eftir spennu undanfarinna vikna eftir að lið hans tryggði sér þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu í gær með því að vinna WBA 3:2 á útivelli.

„Nú get ég loksins sofið betur. Það hefði verið erfitt að lenda í fjórða sætinu því þá hefði maður orðið að bíða og vona að Chelsea yrði ekki Evrópumeistari. Og liðið í fjórða sæti þarf annars að fara í umspil, sem verður erfiðara á hverju ári. Þess vegna er stórkostlegt að vera komnir beint í riðlakeppnina,“ sagði Wenger við vef Arsenal.

„Það er rétt að við vorum í brasi með að ná þessu takmarki en það voru fleiri í slíkri stöðu. Leikmenn okkar hafa virkilega lagt sig fram, það er ekki hægt að segja annað. Í þessum leik var enginn Arteta, enginn Sagna, og fleiri vantaði, en okkur tókst að knýja fram útisigur. Þetta undirstrikar magnaðan karakter í liðinu og ég er mjög stoltur af því sem við náðum.

Þetta er kannski það tímabil hjá Arsenal sem ég er ánægðastur með, því á því miðju hefðu allir sagt mann brjálaðan ef maður hefði sagst ætla að ná þriðja sæti. Við héldum einbeitingunni, lögðum hart að okkur, og lokaniðurstaðan er góð kveðjugjöf fyrir Pat Rice,“ sagði Wenger en aðstoðarmaður hans er nú hættur eftir langa dvöl hjá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka