Gylfi óviss með framtíðina hjá Swansea

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segist ekki vita hvort hann spilar með Swansea á næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en lánssamningur hans við velska liðið er útrunninn.

Gylfi var í láni hjá liðinu frá þýska liðinu Hoffenheim frá áramótum og átti afar góðu gengi að fagna og vakti frammistaða hans verðskuldaða athygli.

Swansea hefur þegar gert Hoffenheim eitt tilboð sem Þjóðverjarnir höfnuðu en talið er að það tilboð hafi hljóðað upp á fjórar milljónir punda.

„Ég er að fara í frí. Ég er leið til Íslands og við verðum bara að bíða og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Gylfi í viðtali við velska netmiðilinn walesonline.

„Ég hef enga hugmynd um hvenær ákvörðun verður tekin og ég ætla ekkert að hugsa um þetta á næstu dögum,“ segir Gylfi, sem skoraði sjö mörk fyrir Swansea og lagði upp nokkur en liðið endaði i 11. sæti úrvalsdeildarinnar á sínu fyrsta tímabili í deildinni.

„Ég hef notið þess að vera hér. Það var frábært að koma hingað og fá að spila reglulega á ný. Það eru margir frábær leikmenn í liðinu og þetta var mjög mikilvægt fyrir mig að koma frá Þýskalandi og fá að spila. Vonandi hef ég náð að endurgjalda Swansea trúna á mér,“ segir Gylfi Þór, sem hefur verið orðaður við mörg lið, þeirra á meðal Manchester United, Newcastle, Arsenal, Tottenham og Liverpool.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, sagði á dögunum að hann væri bjartsýnn á að fá Gylfa aftur til Swansea og semja við hann til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert