„Það hefur verið sannur heiðar að fá að koma aftur til Liverpool sem knattspyrnustjóri,“ segir Kenny Dalglish, fráfarandi knattspyrnustjóri Liverpool, í yfirlýsingu frá félaginu en Dalglish var rekinn fyrr í dag.
„Ég kann virkilega vel að meta þá vinnu sem eigendurnir, leikmennirnir og starfsfólkið hefur lagt á sig á meðan ég hef verið við stjórnvölin og ég er stoltur af því að hafa skilað liðinu sínum fyrsta bikar í sex ár,“ segir Dalglish.
Liverpool endaði í níunda sæti í ensku úrvalsdeildinni en Dalglish segir mun mikilvægar að horfa til þess að liðið vann sinn fyrsta bikar í sex ár.
„Auðvitað er ég vonsvikinn með árangurinn í deildinni en ég hefði ekki skipti á sigrinum í deildabikarnum fyrir neitt því ég veit hversu miklu máli það skiptir stuðningsmenn okkar að liðið sé byrjað að vinna titla aftur,“ segir Kenny Dalglish.