Ítalski knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli, leikmaður Manchester City, segir að hann sé snillingur, en sé misskilinn eins og svo oft gerist með þá sem séu hæfileikaríkari en aðrir.
Framkoma Balotellis innan vallar sem utan hefur oft verið skrautleg og knattspyrnustjóri City, landi hans Roberto Mancini, hefur átt fullt í fangi með að halda piltinum á réttri braut.
„Ég tel að ég sé snillingur en enginn uppreisnarseggur. Ég á mitt líf, minn heim, og geri það sem ég vil án þess að abbast upp á aðra. Ég tel að ég sé gáfaðri en meðalmaðurinn,“ sagði Balotelli í viðtali við France Football í dag en hann býr sig nú undir þátttöku í úrslitakeppni EM með ítalska landsliðinu.
„Sagt er að snillingar séu misskildir og þeir eru kannski svo frábrugðnir öðrum að fólk skilur þá ekki. Hæfileikarnir sem guð gaf mér eru fallegir og yndislegir en það er erfitt að vera gæddur þeim því fólk er mjög ákaft í að dæma mig. Fáir hafa þá hæfileika sem ég hef og það eru því fáir sem geta dæmt mig,“ sagði þessi 21 árs gamli leikmaður.
Hann hefur ítrekað verið orðaður við brotthvarf frá Manchester City en það hefur jafnan verið dregið til baka og Balotelli vill ekki fara þaðan.
„Ég vil vera áfram hjá City, þar líkar mér mjög vel. Já, þar vil ég vera. Mancini hefur þekkt mig síðan ég var smástrákur og þekkir mig virkilega vel. Samband okkar er meira en hjá leikmanni og þjálfara - vinátta okkar ristir djúpt.
Mig dreymir um að verða besti fótboltamðaur heims. Ég veit að ég er góður en ef ég legg hart að mér get ég orðið miklu betri. Gullboltinn er mikilvægasti titill sem hægt er að vinna, á eftir heimsmeistarakeppninni og Evrópukeppninni. Það er markmið. Ég tel að ég geti hreppt hann einhvern tíma en verð að bæta mig dálítið til þess.
Þegar ég ákveð að skora mark, þá skora ég. Ég veit að ég er öflugur en það er ekki nóg enn sem komið er. Ég er með góðar spyrnur og góður í að leika á menn en þarf að bæta mig meira,“ sagði Balotelli og bætti við að Messi og Ronaldo væru hreint stórkostlegir fótboltamenn.