Joey Barton, fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins QPR á síðasta tímabili, fær eitt tækifæri enn og verður ekki rekinn frá félaginu þó hann hafi fengið 12 leikja bann fyrir hegðun sína í leik liðsins við Manchester City í úrvalsdeildinni í vor.
Félagið hefur ekki gefið neitt út um málið enn en að sögn enskra fjölmiðla fær Barton lokaaðvörun og fær að spila áfram með liðinu eftir að 12 leikja banninu lýkur í byrjun nóvember.
Reiknað er með að þetta verði formlega gefið út fljótlega og Barton fái jafnframt aðvörun um að gæta sín í ummælum á samskiptavefnum Twitter en þar hefur hann látið ýmislegt flakka á undanförnum mánuðum.