Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu, hefur í hyggju að yngja upp lið sitt fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins sem hefst í haust og ætlar að gefa nýjum leikmönnum tækifæri þegar England mætir Ítalíu á nýjan leik - í vináttulandsleik í ágúst.
„Þið eigið eftir að sjá talsverðar breytingar í þeim leik vegna þess að þar gefst kjörið tækifæri til að prófa nokkra af þeim leikmönnum sem voru ekki með okkur á EM og telja kannski að þeir hefðu átt heima í hópnum. Ég ætla að skoða hvort þeir styrki okkar lið," sagði Hodgson á fréttamannafundi í gær.
Ungir leikmenn sem nefndir eru til sögunnar hjá Hodgson eru m.a. Kyle Walker, Chris Smalling, Tom Cleverley, Jack Rodwell og Jack Wilshere ásamt yngri leikmönnum sem þegar eru í hópnum eins og Alex Oxlade-Chamberlain og Danny Welbeck.
„Við þurfum að halda í þau atriði sem voru okkar styrkleiki í þessari Evrópukeppni, agaðan varnarleik, skipulag og vinnusemi, ásamt því hugarfari að þrá að spila fyrir hönd Englands og vera tilbúnir til að leggja á sig aukavinnu til að komast í liðið. Síðan er spurningin hvernig við aukum gæðin í liðinu,“ sagði Hodgson en enska liðið tapaði ekki leik á EM undir hans stjórn og féll út í vítaspyrnukeppni gegn Ítölum.