Gylfi fyrstur hjá Villas-Boas

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Swansea. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson verður fyrsti leikmaðurinn sem André Villas-Boas gengur frá kaupum á sem knattspyrnustjóri Tottenham á mánudaginn kemur, að því er fram kemur í enskum fjölmiðlum í dag.

Netmiðillinn Goal.com segir að Villas-Boas hafi samþykkt tilboð Tottenham um þriggja ára samning. Frá lausum endum verði gengið um helgina og Portúgalinn kynntur til sögunnar sem knattspyrnustjóri félagsins á mánudaginn.

Í framhaldi af því verði Gylfi Þór Sigurðsson kynntur til sögunnar sem fyrsti leikmaðurinn sem Villas-Boas fær til félagsins. Tottenham hafi þegar gengið frá kaupum á honum fyrir 8 milljónir punda og Íslendingurinn sé búinn að gangast undir læknisskoðun á White Hart Lane, ásamt því að semja við félagið um kaup og kjör.

Fram kemur að Villas-Boas hafi samþykkt kaup félagsins á Gylfa og belgíska miðverðinum Jan Vertonghen frá Ajax, en Tottenham hefur verið í samningaviðræðum við hollensku meistarana um þann síðarnefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert